Go to the page content
Líf með offitu | 5 Lágm. lestur

Sigur Carinu yfir þyngdinni hófst með sálrænni meðferð

Ég átti nokkur mjög erfið ár eftir að ég varð barnshafandi, þegar ég var 21 árs árið 1995, þegar ég virkilega barðist við átröskun alveg og þangað til árið 2006, þegar ég fór í sálræna meðferð. Þar lærði ég að taka á sálrænum þáttum sem voru ástæðurnar fyrir því ofáti sem endaði með að ég varð 130 kg að þyngd. Eftir meðferðina fékk ég allt aðra sýn á sjálfa mig. Síðustu tímamót hjá mér voru 2019 þegar ég gekkst undir offituaðgerð. Offituaðgerðin var samt bara það rétta í stöðunni af því að ég var búin að ná tökum á sálrænu hliðinni áður.

Ofþyngdin olli mörgum líkamlegum takmörkunum

Fyrir sálrænu meðferðina barðist ég við verulega sjálfsfyrirlitningu og öryggisleysi. Þannig hafði það verið síðan ég var barn og með árunum hafði það orðið að vítahring. Því meiri sjálfsfyrirlitning því meira öryggisleysi og þeim mun meira borðaði ég, því að ég fann huggun og öryggi í matnum, en því meira sem ég borðaði því meira varð öryggisleysið og sjálfsfyrirlitningin. Og þá hófst vítahringurinn að nýju. Það leiddi til átröskunar í formi ofáts og stöðugrar þyngdaraukningar. Þetta hélt áfram í mörg ár, alveg til ársins 2006, en þá fór ég, þegar ég var 32 ára, í sálræna meðferð. Á þeim tíma var ég 130 kg að þyngd.

Í meðferðinni var m.a. unnið með öryggisleysið, bjöguðu sjálfsmyndina mína og sjálfsfyrirlitninguna – það er að segja sálrænu þættina, sem í rauninni voru grundvallarorsakirnar fyrir því að ég hafði allt mitt líf barist við þyngdina. Eftir meðferðina og talsverða vinnu í sjálfri mér, þar sem ég stundaði m.a. núvitundaræfingar, lærði ég að hafa raunverulega trú á sjálfri mér. Ég lærði að sætta mig við sjálfa mig og mína ofþyngd, að „svona lít ég út“ og mér leið vel með það. Mér finnst að það sé svona sem ég eigi að vera. Og ef fólk gæti ekki sætt sig við það þá hefði ég ekki áhuga á að hafa það í mínu lífi.

Þannig að með tilliti til sjálfstrausts og hvernig mér leið andlega var allt gott í mínu lífi. Ég man ekki hvenær mér leið síðast svona vel með sjálfa mig. Það eina sem var „en“ var samt að mín 130 kg settu mér líkamlegar skorður. Ég fann til í hnjánum, gat ekki gengið upp tröppur án þess að finna til, ég var með bakflæði og nábít og ég hraut mikið á nóttunni – og allt þetta hafði að sjálfsögðu áhrif á lífsgæði mín.

Með andlegu hliðina í lagi var offituaðgerð raunhæfur möguleiki

Ég leitaði til þáverandi læknis míns vegna þessara líkamlegu óþæginda. En hann vildi ekki vísa mér í offituaðgerð vegna þess að hann taldi ekki að ég uppfyllti skilyrðin. En ég var þrjósk og leitaði til annars læknis, sem vildi gjarnan vísa mér í aðgerð. Eftir það komu fleiri áskoranir þegar Region Sjælland, þar sem ég bý, vísaði offituaðgerð á bug þrátt fyrir tilvísun læknisins og slitgigtina í hjánum.

Sem betur fer vann ég á þeim tíma sem læknaritari á sjúkrahúsi í Region Hovedstaden og þar var fólk ósammála ákvörðun Region Sjælland. Þannig að þegar mér, 46 ára árið 2019, var boðin offituaðgerð á sjúkrahúsi sem ég vann á, sagði ég já undir eins.

Ég vil þó leggja áherslu á að það var eingöngu af líkamlegum ástæðum sem ég sagði já við aðgerðinni. Almennt hef ég alltaf verið á móti offituaðgerðum, ef ekki hefur fyrst verið tekið á raunverulegri ástæðu þess að fólk hefur orðið of þungt. Í mínu tilfelli var ofþyngdin vegna sálrænna erfiðleika sem lágu djúpt og áttu rætur mörg ár aftur í tímann.

Það er mín sannfæring að það verði að meðhöndla raunverulega orsök offitunnar, áður en offituaðgerð kemur til greina. Ef það er ekki gert tel ég að offituaðgerðir hafi ekki tilætluð áhrif þegar til lengdar lætur. Því að ef maður borðar óhóflega eins og ég gerði þá bætir maður á sig fullt af kílóum aftur þó að maður hafi farið í aðgerð vegna offitu. Það er ekki offituaðgerðin ein og sér sem fær þig til að hætta að borða.

”Hversdagslegur hlutur eins og að fara í fataverslun fyrir fólk í venjulegri þyngd og hafa tækifæri til að kaupa nákvæmlega þau föt sem ég vildi. Það var frábært.“

-Carina Jørgensen

Tilfinningin að tilheyra samfélaginu

Af því að ég hafði það gott andlega áður en ég fór í aðgerðina, varð hún eitt af því besta sem ég hef gert fyrir sjálfa mig. Öll þau líkamlegu óþægindi sem ég hafði áður en ég fór í aðgerðina hurfu og ég gat hreyft mig án erfiðleika. Og svo viðurkenni ég að offituaðgerðin var líka góð fyrir sálina og sjálfstraustið.

Hversdagslegur hlutur eins og að fara í fataverslun fyrir fólk í venjulegri þyngd og hafa tækifæri til að kaupa nákvæmlega þau föt sem ég vildi – og sem allir aðrir kaupa líka. Það var frábært. Maður fær á tilfinninguna að maður tilheyri samfélagi eðlilegs eða venjulegs fólks, og það skiptir meira máli en maður stundum vill viðurkenna.

Ef þið hefðuð spurt mig áður en ég fór í aðgerðina, þá held ég að ég hefði lagt áherslu á að það skipti ekki máli hvort maður er sver eða grannur. En það er engu að síður mikilvægt að maður upplifi ekki að það sé talað niður til manns þegar maður er mjög þungur. Allir hafa þörf fyrir viðurkenningu óháð því hversu stórir þeir eru.

Tengdar greinar

Offita: Sjúkdómur sem á sér margar orsakir
Offita | 3 Lágm. lestur

Offita: Sjúkdómur sem á sér margar orsakir

Rannsóknir hafa sýnt að orsakir offitu eru margar. Þættir sem einstaklingur með offitu er ekki endilega meðvitaður um – eða sem viðkomandi hefur ekki stjórn á.

Carina Jørgensen: „Sálrænar orsakir ofþyngdar eru sá þáttur sem fólki yfirsést“
Líf með offitu | 5 Lágm. lestur

Carina Jørgensen: „Sálrænar orsakir ofþyngdar eru sá þáttur sem fólki yfirsést“

Carina Jørgensen er 47 ára og er frá Odsherred á Sjálandi. Carina hefur menntun sem skrifstofumaður og læknaritari, á þrjár dætur og kærasta og er virk í landssamtökunum um ofþyngd. Carina barðist í mörg ár við sálrænar áskoranir, átröskun og ofþyngd, þangað til hún fékk þá hjálp sem hún hafði þörf fyrir.