Go to the page content
Ráð   ÞYNGDARTAP | 5 Lágm. lestur

10 góð ráð fyrir samtalið við lækninn

Eftir Tinu Vilsbøll, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og yfirlækni á Steno Diabetes Center í Kaupmannahöfn

Það getur verið erfitt að byrja að tala um offitu – líka við lækninn. Staðreyndin er að alltof margir þeirra sem eru með offitu reyna að meðhöndla þyngdina sjálfir, en þannig þarf það ekki að vera.

Það er frábært að þú viljir tala um offituna, af því að samtalið við lækninn er mikilvægt. En það er líka mikilvægt að þú íhugir, fyrir samtalið, hvaða væntingar þú hefur til þín og hvaða væntingar þú hefur til læknisins, þannig að þú sért undirbúin/-n og tilbúin/-n fyrir samtalið við lækninn.

Hér eru tíu góð ráð sem geta hjálpað þér í gang með þær hugmyndir sem þú hefur um þyngdartap og mikilvægt er að þú talir um þessar hugmyndir við lækninn, þannig að þið getið í sameiningu gert meðferðaráætlun.

10 spurningar sem þú getur spurt lækninn:

1. Ég vil gjarnan léttast, af því að (hér skaltu íhuga mikilvægustu ástæðuna), getur þú hjálpað mér?

Það er mikilvægt að læknirinn viti af hverju þú vilt léttast. Það gefur tilefni til að ræða hvernig þyngdin hefur verið fram að þessu og hvernig þú vilt hafa framtíðina.

2. Hvað gerir þú í tengslum við þyngdartap?

Þetta er mikilvæg spurning vegna þess að það er ekki nein ein leið sem hentar öllum. Það þýðir að rannsóknir, mat og meðferð er breytileg og mun fara eftir þínum aðstæðum, heilsufarsvandamálum og hugsanlega fyrri meðferðum.

3. Hver annar en þú getur hjálpað mér með mitt þyngdartap?

Þú getur ekki gert ráð fyrir að læknirinn sé sérfræðingur í öllu. En þú getur gert ráð fyrir að læknirinn viti hvenær á að vísa þér til annars sérfræðings.

4. Hvaða meðferðarmöguleikar eru fyrir hendi?

Það er engin töfralausn í boði. Bæði þú og læknirinn þinn þurfið að vera meðvituð um að ferlið í átt að þyngdartapi getur verið langt og það getur tekið á. Best er ef þverfaglegt teymi kemur að meðferðinni en huga þarf að lífsstíl, hreyfingu, næringu og andlega þættinum. Á Íslandi eru fáar lyfjameðferðir í boði og einhverjum stendur til boða að fara í efnaskiptaaðgerð. Þú skalt, í samvinnu við lækninn þinn, skoða hvaða meðferðir henta þér best.  

5. Hvað telur þú að sé raunhæft markmið með tilliti til varanlegs þyngdartaps – og hvernig er hægt að styrkja þau markmið?

Þessi spurning hjálpar þér að komast að tvennu: hvort læknirinn hefur náð árangri í sinni aðkomu að meðferð offitu og hvort læknirinn fylgi sjúklingunum sínum eftir á meðferðartímabilinu. Þetta er mikilvægt því að þú vilt hafa lækni sem hefur áhuga á langtímameðferð.

6. Hverjum hefur þú reynslu af að hafa með í ráðum í tengslum við þyngdartap?

Læknirinn á að hjálpa þér að finna góð og raunhæf markmið. En það er líka jafn mikilvægt að þú fáir stuðning í ferlinu og að þú segir frá hvernig stuðning þú þarft. Það fer eftir meðferðinni þinni, en næringarfræðingur og sérfræðingur í hreyfingu gætu verið góður stuðningur, en stuðningshópar, staðbundnir og/eða á netinu geta líka verið mjög góð leið til að skiptast á reynslu og viðhalda hvatningu til þyngdartaps.

7. Hversu oft mun ég koma í viðtal til þín?

Því oftar, því betra. Viðtölin þín við lækninn hafa þann tilgang að styðja við þig, halda þér við áætlunina og ef til vill að aðlaga meðferðina eftir þörfum. En viðtölin eru ef til vill ekki alltaf við lækninn – þau eiga líka að vera við aðra meðferðaraðila sem tengjast þyngdartapsmeðferðinni.

8. Hvað kemur það til með að kosta að fara í þyngdartapsferli?

Kostnaðurinn sem tengist þyngdartapi er mjög breytilegur, allt eftir því hvaða meðferðaráætlun er gerð fyrir þig. En það er mikilvægt að þú vitir hvað þú þarft sjálf/-ur að borga, svo að þú getir líka gert raunhæfa fjárhagsáætlun.

9. Hvenær á að taka á því ef áætlunin virkar ekki?

Offita er flókin. Til þess að meðferð beri árangur þarft þú einstaklingsbundna meðferðaráætlun, sem hentar þínum þörfum nákvæmlega. Slík áætlun á að fela í sér raunhæf markmið og reglubundið mat. Það getur verið nauðsynlegt að aðlaga meðferðaráætlunina, en það fer eftir árangrinum. Það er mikilvægt að þú og læknirinn í sameiningu, séuð ávallt að meta hvort þörf sé á að aðlaga áætlunina.

10. Hefur þú áhuga á að við vinnum saman að mínu þyngdartapi?

Þetta getur hljómað eins og mjög beinskeytt spurning, en það er mikilvægt að þú upplifir að þú sért í góðum höndum. Þú þarft einhvern sem hefur áhuga á að vera hreinskilinn félagi þinn á þessari vegferð að þyngdartapi og sem tekur á sig hluta af ábyrgðinni á árangri þínum.

Tengdar greinar

Ofþyngd er erfið, og það er engin skyndilausn
Offita | 5 Lágm. lestur

Ofþyngd er erfið, og það er engin skyndilausn

Tina Vilsbøll er prófessor og yfirlæknir og hún telur að meðferðaraðilar ættu að vera miklu færari í því að grípa tækifæri til umræðna þegar þeir taka á móti sjúklingi með offitu. Einnig dreymir hana um að meðferð einstaklinga með offitu verði allt önnur í framtíðinni.