Go to the page content
Líf með offitu | 3 Lágm. lestur

Thilde: „Þegar ég fór að tala opinskátt um þyngdina mína, fór mér að líða betur“

Fyrirlitningin á líkama mínum og sjálfri mér byrjaði snemma. Mér fannst ekki vera pláss fyrir mig í heiminum af því að ég var svo feit. Þess vegna hef ég alltaf horft á þyngdina mína og útlitið – og fundist ég alveg ómöguleg. Það varð til þess að ég fékk átröskun á unga aldri, sem hefur fylgt mér nánast allt mitt líf. Ég skammaðist mín fyrir að vera of þung, en í staðinn fyrir að tala um það við einhvern borðaði ég bara ennþá meira. Vendipunkturinn verður þegar ég fer að opna mig og þori að tala um hvað ég eigi erfitt og að ég þurfi hjálp – og þá fyrst kemst ég út úr vítahringnum.

Það komu sprungur í allt

Ég hef haldið, alveg síðan ég var barn, að ég hafi verið mjög þung, en núna þegar ég er 41 árs og skoða myndir af sjálfri mér þegar ég var barn og ung, sé ég að ég var í rauninni ekki svo stór. Ég var ekki tággrönn eða jafn grönn og margir aðrir, en ég var alls ekki með ofþyngd.

Tilfinningin um að vera ómöguleg byrjaði snemma og ég byrjaði að borða til að fá frið og eftirá kastaði ég upp af skömm. Á unglingsárunum þyngdist ég meira og meira og eftir nokkrar erfiðar meðgöngur var ég einhverstaðar á milli ofþyngdar og offitu. Á sama tíma var mikið að gera í vinnunni og þess vegna hélt ég að streita væri orsökin fyrir ofþyngdinni. Að lokum sagði ég við sjálfa mig: „Ég skipti um vinnu og þá leysist þetta allt saman.“ En það gerðist að sjálfsögðu ekki.

Þegar ég komst að því að það voru ekki eingöngu streita og vinna sem gerðu mér erfitt fyrir, sagði ég náinni vinkonu minni frá því að ég ætti örugglega við vandamál að stríða. Hún hlustaði á mig og talaði við mig þangað til ég var tilbúin að tala við fagaðila. Þá fóru hlutirnir að breytast af alvöru. Það var eins og stungið væri á kýli og það komu sprungur í allt. Þá var ég tilbúin til að horfast í augu við vandamálin og fá hjálp.

„Því opnari sem ég er um það, því minna tabú er það.“

- Thilde Bøjlund

Maður verður að þora að opna sig – og sætta sig við varnarleysið

Ég byrjaði hjá starfssálfræðingi sem gerði áætlun um hvað ég ætti að gera til að komast í meðferð við átröskuninni. Ég óskaði sjálf eftir offituaðgerð, en var vísað frá vegna þess að ég þyrfti að taka á átröskuninni fyrst, sem er skiljanlegt.

Áætlunin fól í sér að ég færi til heimilislæknisins af því að ég þurfti að fá tilvísun. Það hef ég alltaf verið hrædd við, af því að ég skammaðist mín svo mikið fyrir að vera of þung, því ég myndi heyra að ég ætti bara að „loka munninum og lyfta rassinum“. Ef það væri svo auðvelt hefði ég séð sjálf um mitt eigið þyngdartap. En með stuðningi starfssálfræðingsins varð ég nógu hugrökk til þess að fara til heimilislæknisins og segja frá mínum erfiðleikum þannig að hægt var að hjálpa mér áleiðis.

Eftir að ég var komin inn í kerfið, hitti ég frábærar manneskjur sem hugsuðu um mig og komu mér í rétta meðferð. Ég var opin, varnarlaus og tilbúin til að gera allt sem mér var sagt. Það var mikil vinna, en líka það besta sem ég hef nokkru sinni gert fyrir sjálfa mig. Á þeim tímapunkti var ég tilbúin til að gera hvað sem var til að líða betur og þess vegna tókst mér að líða betur. Ég er mjög þakklát fyrir það að ég skuli hafa fengið tækifæri til að fá meðferð. Það var rosalega erfitt, en það hefur líka bjargað lífi mínu.

Ofþyngd ætti ekki að vera tabú

Eftir meðferðina fór ég í nám um sjálfsvirðingu og nám í matarráðgjöf og hélt áfram að vinna í sjálfri mér. Það hefur tekið mörg ár að komast þangað sem ég er nú, en ég finn að því opnari sem ég er með átröskunina og ofþyngdina, því minna tabú er það. Ég verð að taka sjálfri mér eins og ég er, því hvernig eiga aðrir að taka mér eins og ég er ef ég geri það ekki sjálf? Ég er ennþá með ofþyngd, en ég horfi ekki svo mikið á kílóin í sjálfu sér, heldur á það að vera heilbrigð og lifa virku lífi að eins miklu leyti og hægt er með dálítið af aukakílóum.

Mitt besta ráð til annarra í sömu stöðu er að tala um þetta við einhvern sem maður treystir og opna sig fyrir viðkomandi. Það getur t.d verið góð vinkona, einhver sem er í sömu aðstöðu eða fagaðili, ef þú hefur hugrekki til þess. Þegar maður hefur sagt það upphátt, hefur maður oft tekið fyrsta skrefið í átt að því að líða betur.

Tengdar greinar

Offita: Sjúkdómur sem á sér margar orsakir
Offita | 3 Lágm. lestur

Offita: Sjúkdómur sem á sér margar orsakir

Rannsóknir hafa sýnt að orsakir offitu eru margar. Þættir sem einstaklingur með offitu er ekki endilega meðvitaður um – eða sem viðkomandi hefur ekki stjórn á.