Go to the page content
Stuðningur   OFFITA | 2 Lágm. lestur

Fyrir hverja eru heilsueflandi móttökur á heilsugæslum og hvað tekur við þegar einstaklingur hefur fengið tilvísun í móttökuna?

Helga Sævarsdóttir hjúkrunar- og lýðheilsufræðingur, svæðisstjóri og fagstjóri hjúkrunar á heilsugæslu Árbæjar. Hún hefur mikla reynslu af vinnu með einstaklingum með offitu og aðra langvinna sjúkdóma. Hún hefur staðið fyrir heilsueflandi námskeiðum og verið með einstaklingsráðgjöf á sínum vinnustað undanfarinn áratug.

Heilsueflandi móttaka er regnhlífarhugtak fyrir heildræna nálgun á einstaklinginn óháð heilsuvanda. Algengt er að einstaklingar sem koma í móttökuna séu með fleiri en einn langvinnan sjúkdóm en stærstur hluti þeirra sem leita til heilsueflandi móttöku eru einstaklingar með offitu. Í þessari grein fer Helga yfir starfsemi móttökunnar, tilgang hennar og lýsir því hvað tekur við þegar einstaklingur fær tilvísun í heilsueflandi móttöku.

Heilsueflandi móttaka á Heilsugæslunni í Árbæ

Heilsueflandi móttaka hefur verið hluti af fjölbreyttri þjónustu okkar á Heilsugæslunni í Árbæ í um áratug. Hún hefur verið í stöðugri þróun og tekið nokkrum breytingum á þeim tíma en byggir enn á sömu hugmyndafræðinni. Heilsueflandi móttaka er regnhlífarhugtak fyrir heildræna nálgun á einstaklinginn óháð heilsuvanda. Flestir sem til okkar leita eru þó með offitu eða sykursýki, en algengt er að einstaklingar séu með fleiri en einn langvinnan sjúkdóm. Í Heilsueflandi móttöku er áhersla lögð á að veita markvissan, faglegan stuðning og einstaklingsmiðaða nálgun; að mæta viðkomandi þar sem hann er staddur og styðja hann í að taka góðar ákvarðanir fyrir heilsu sína til lengri tíma. Ráðgjöfin er fyrir 18 ára og eldri og er veitt í einstaklingsviðtölum hjá hjúkrunarfræðingi á heilsugæslunni.

Þörfin fyrir að bjóða upp á sérstaka heilsueflandi móttöku kom vegna þess að okkur, fagfólki á Heilsugæslunni í Árbæ, fannst vanta úrræði fyrir einstaklinga með langvinnan heilsuvanda. Það varð til þess að stofnað var heilsueflandi teymi sem læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfari og ritari eru í, síðar hafa bæst við sálfræðingar á heilsugæslurnar sem við getum vísað til.  Við leggjum mikið upp úr virðingu fyrir einstaklingnum og gerum okkur grein fyrir að margir sem til okkar leita hafa áður mætt fordómum frá samfélagi og jafnvel heilbrigðisstarfsfólki.

Einstaklingsráðgjöfin sem veitt er í dag þróaðist út frá heilsueflandi námskeiðum fyrir konur sem byggðu á þjálfun svengdarvitundar. Þjálfun svengdarvitundar er eitt form hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) og byggir í grunninn á því að borða eftir svengdar- og seddumerkjum líkamans.  Eins og áður segir eru flestir sem leita til heilsueflandi móttöku einstaklingar með offitu og því er unnið eftir klínískum leiðbeiningum fyrir einstaklinga með offitu sem komu út í janúar 2020.

Tuttugu konur tóku þátt í svengdarvitundar námskeiðinu og var fylgst með andlegri og líkamlegri heilsu þeirra á meðan á námskeiðinu stóð.  Í ljós kom að eftir þátttöku í þessu 15 vikna námskeiði voru lífsgæði almennt betri og dregið hafði úr þunglyndis- og kvíðaeinkennum, auk þess sem konurnar höfðu lést.

Á námskeiðinu sáum við að það hentar ekki öllum að vera í hóp auk þess sem rannsóknir seinni ára sýna fram á mikilvægi langtímastuðnings til að viðhalda breyttum venjum. Hvort sem einstaklingur er með offitu eða háþrýsting er mælt með eftirliti a.m.k. einu sinni á ári.

Til að byrja með var einn hjúkrunarfræðingur stöðvarinnar sem starfaði við ráðgjöfina sem var þá kölluð lífsstílsráðgjöf. Þróunin hefur verið sú að tala um Heilsueflandi móttökur og finnst okkur það mun meira lýsandi fyrir þjónustuna.

Með tilkomu aukins fjármagns til málaflokksins hjá heilsugæslum landsins árið 2020 skapaðist tækifæri til að auka mönnun í þetta mikilvæga starf.  Álag vegna Covid hefur vissulega aðeins tafið uppbygginguna en í dag eru fjórir hjúkrunarfræðingar sem starfa að hluta við slíka ráðgjöf hér í Árbænum og samstarfið við heimilislækna er mjög gott. Samtalið byrjar oftast á viðtali hjá lækni sem ýmist er að frumkvæði einstaklings eða læknis.

„Með því að efla heilsusamlegar venjur er unnt að hafa áhrif á áhættuþætti sem geta minnkað líkur á langvinnum sjúkdómum eða dregið verulega úr neikvæðum áhrifum þeirra á lífsgæði einstaklinga“

 

Öllum sem koma í heilsueflandi móttöku býðst einnig að fá hreyfiseðil. Hreyfiseðill er meðferðarúrræði þar sem hreyfing er meðferðarformið. Allir sem fá hreyfiseðil fá samtal við sjúkraþjálfara sem gerir mælingar og hjálpar fólki að setja sér raunhæf markmið um hreyfingu.

Markmið ráðgjafar er að aðstoða þátttakendur við að breyta venjum til frambúðar með því m.a. að breyta hugarfari, matarvenjum og hreyfivenjum. Með því að efla heilsusamlegar venjur er unnt að hafa áhrif á áhættuþætti sem geta minnkað líkur á langvinnum sjúkdómum eða dregið verulega úr neikvæðum áhrifum þeirra á lífsgæði einstaklinga.

Áherslur:

  • Unnið með áhugahvöt
  • Raunhæf markmið
  • Þjálfun svengdarvitundar
  • Bera kennsl á truflandi hugsanir
  • Heilsusamlegt mataræði
  • Hreyfing við hæfi
  • Svefn og streitu

Eftir að tilvísun berst í móttökuna frá heimilislækni hefur hjúkrunarfræðingur samband  og býður tíma í fyrsta viðtal.

Fyrsta viðtalið er í flestum tilvikum 50-60 mínútur þar sem byggt er á áhugahvetjandi samtali. Einnig eru oftast lagðir fyrir kvarðar þar sem fæst mynd af matar-, hreyfi- og svefnvenjum einstaklinga og áhugahvöt þeirra er könnuð. Einnig er í mörgum tilfellum lagðir fyrir kvarðar sem meta andlega líðan. Þá eru mælingar gerðar á hæð, þyngd og mittismáli og hafa flestir farið í blóðprufu að beiðni læknis fyrir fyrstu komu. Engin tvö viðtöl eru þó eins og ef það eru önnur atriði sem einstaklingur vill ræða í fyrsta viðtalinu þá er það gert, aðalatriðið er að ná að mynda meðferðarsamband og skapa traust á milli hjúkrunarfræðings og einstaklings.

Við leggjum vanalega til  heimavinnu  þar sem einstaklingur er m.a. beðinn um að velta fyrir sér og skrifa niður ástæður þess að hann vill breyta venjum sínum. Einnig byrja einstaklingar að huga að markmiðasetningu sem er mikilvægur þáttur í ferlinu. Horft er bæði til langtíma- og skammtíma markmiða. Í næsta tíma á eftir er leitast við að slípa markmiðin til og finna jafnvægið á milli hæfilega krefjandi og raunhæfra markmiða.

Umræðan er tekin um hvað er árangur meðferðar og það er oft mjög einstaklingsbundið, áherslan hjá okkur er á að skapa heilbrigðar venjur til lengri tíma. Ef það tekst er það árangur sem hefur áhrif á heilsuna burt séð frá þyngdartapi. Stundum er það að bæta svefn púslið sem vantar til að einstaklingur geti komið reglu á mataræði og hreyfivenjur.

Mjög breytilegt er hve oft einstaklingar hitta hjúkrunarfræðing en reynst hefur vel að byrja á að hittast þétt, á 3-4 vikna fresti, meðan viðkomandi tekur fyrstu skrefin í að prófa sig áfram með markmiðin sín. Gert er ráð fyrir að endurmeta meðferðina í samráði við heimilislækni eftir sex til tólf mánuði. Þá eru upphafsmælingar endurteknar og metið hver þörfin er fyrir áframhaldandi stuðning,  er árlegur stuðningur nóg eða þarf ef til vill að vísa í önnur úrræði.

Það hefur færst í vöxt síðastliðin ár að lyfjameðferð í sprautuformi sé  hluti af offitumeðferð og þá kennir hjúkrunarfræðingur einstaklingnum að nota lyfjapenna. Aldrei er mælt með lyfjameðferð einni og sér heldur sem viðbót við aðra meðferð.

Heilsueflandi móttökur innan heilsugæslunnar eru í stöðugri mótun og ánægjulegt að frá haustinu 2020 hefur verið starfandi hjá Þróunarmiðstöð Íslenskrar heilsugæslu verkefnastjóri heilsueflandi móttöku. Hlutverk verkefnastjóra er að samhæfa verklag og skráningu um land allt. Það er auðvitað markmiðið að hægt sé að fá slíka ráðgjöf á öllum heilsugæslustöðvum, víða er unnið mjög gott starf, þó er enn langt í land þegar kemur að því að fjármagn til málaflokksins sé nægjanlegt til að mæta þörfinni.

Það verður spennandi að taka þátt í áframhaldandi þróun og uppbyggingu heilsueflandi móttöku, þar sem tæknin og gagnvirk samskipti í gegnum Heilsuveru munu væntanlega aukast.

Heimildir

Tengdar greinar

Ofþyngd er erfið, og það er engin skyndilausn
Offita | 5 Lágm. lestur

Ofþyngd er erfið, og það er engin skyndilausn

Tina Vilsbøll er prófessor og yfirlæknir og hún telur að meðferðaraðilar ættu að vera miklu færari í því að grípa tækifæri til umræðna þegar þeir taka á móti sjúklingi með offitu. Einnig dreymir hana um að meðferð einstaklinga með offitu verði allt önnur í framtíðinni.