Go to the page content
Umhverfi | 5 Lágm. lestur

Nútímasamfélag hefur áhrif á hættuna á offitu

Samfélagið okkar og sá matur sem við borðum, hafa gjörbreyst með tímanum. En líffræðilegir eiginleikar hafa í stórum dráttum haldist óbreyttir. Þeir geta fengið okkur til þess að trúa að við séum í hættu á að svelta og leitum í orkuríkan mat, salt, fitu og sykur.

Ef við lítum á hversdagslífið okkar sjáum við að flest okkar nota bíl eða almenningssamgöngur á leið til vinnu. Við höfum lyftur og rúllustiga til að flytja okkur þangað sem við erum að fara án þess að við svitnum nokkuð. Skrifstofustörf og þéttbýlislíf gera það oft að verkum að við þurfum að sitja meira og lengur í einu. Við erum umkringd miklu af bragðgóðum mat og drykk sem við höfum gott aðgengi að. Og það er margt sem við þurfum að hafa áhyggjur af og fylgjast með – hvort sem það er í vinnu, einkalífi eða á samfélagsmiðlum. Við sofum líka minna og erum haldin meiri streitu.

En fæstir átta sig á því hvernig allt þetta tengist offitu. Til þess að geta skilið það verðum við að fara aftur í tímann.

Samfélagið fyrir 50.000 árum

„Að borða eða verða borðaður!“ Ímyndaðu þér að þú hafir verið uppi fyrir 50.000 árum, á steinöld. Það eina sem forfeður okkar voru uppteknir af var að afla sér hitaeininga, sem veiðimenn, safnarar eða fiskimenn. Það, og líka að verða ekki stórum rándýrum að bráð.

Það var lítið af fæðu svo það að fá nóg að borða þýddi auknar líkur á að lifa af, og þar með auknar líkur á að geta fjölgað sér. Lykillinn að velgengni var að afla fæðu sem var rík af fitu, sykri og salti. Þess vegna hefur líkaminn lært að finna og velja orkuríka fæðu, til þess að við getum lifað af í gegnum tímabil með hungri.

„Aukning offitu um allan heim er ekki vegna þess að viljastyrkurinn hafi skyndilega horfið. Þess í stað þarf að sjá þyngdaraukninguna sem eðlileg viðbrögð við því að lifa í umhverfi sem hefur breyst hraðar en mannskepnan hefur getað aðlagast.“

-Morris R. Stranger in a strange land: an optimal-environments account of evolutionary mismatch.

Lífið breyttist – en líffræðilegir eiginleikar breyttust ekki

Nú heldur þú ef til vill að við hljótum að vera mjög ólík forfeðrum okkar. En þau kerfi sem hjálpuðu þeim að lifa af eru enn til staðar í líkama okkar. Og þau eru oft virk, án þess að við séum meðvituð um það.

Blurry vision of the street full of food trucks.

Matvælaframleiðendur, stórmarkaðir, veitingastaðir og skyndibitakeðjur taka sérstaklega vel eftir því hvaða mat við veljum. Boðið er upp á mikið úrval af ódýrum, girnilegum og orkuríkum mat sem inniheldur salt, sykur og fitu. Þetta er yfirþyrmandi samsetning fyrir skilningarvit okkar – miklu meira yfirþyrmandi en heilinn okkar hefur þróast til að standast. Þess vegna er erfitt að standast þann lokkandi matarilm sem við erum umkringd af nú á tímum.

Það ætti ekki að koma okkur á óvart að við pöntum stærsta skammt á skyndibitastað eða fyllum innkaupakörfuna, þó að við séum ekki svöng. Geta okkar til að standast þennan mat, sem er freistandi af ásettu ráði, ræðst af mörgum þáttum, þ.m.t. erfðum – en þeir eru mismunandi milli einstaklinga.

Aukning offitu um allan heim er ekki vegna þess að viljastyrkurinn hafi skyndilega horfið. Þess í stað þarf að sjá þyngdaraukninguna sem eðlileg viðbrögð við því að lifa í umhverfi sem hefur breyst hraðar en mannskepnan hefur getað aðlagast.

650 milljónir

fullorðinna eru með offitu og það sama á við um meira en 120 milljónir barna og unglinga um allan heim.

-Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, Global Estimates, 2016

Breytingar í umhverfinu geta stutt markmið þín varðandi þyngdarstjórnun

Í nútímaumhverfi er margt sem eykur hættu á offitu. Mörgu af þessu höfum við enga stjórn á, en sem betur fer er samt margt sem við getum gert. Skipulagsbreytingar í umhverfinu eru eitt af því.

Lestu þessa grein til að fá leiðbeiningar um hvernig þú breytir umhverfinu þínu. Stýrðu hungrinu: Að skipuleggja, undirbúa og borða hollan mat.

bowl with apples, bananas, grapes and oranges on table
Heimildir
  • Appelhans BM. Neurobehavioral Inhibition of Reward-driven Feeding: Implications for Dieting and Obesity. Obesity 2009; 17:640–647.
  • Morris R. Stranger in a strange land: an optimal-environments account of evolutionary mismatch. Synthese 2018; 1-26.
  • Sumithran P & Proietto J. The defence of body weight: a physiological basis for weight regain after weight loss. Clinical Science 2013; 124:231-241.
  • Guyenet S. The hungry brain. Outsmarting the instincts that make us overeat. New York: Flatiron 2017.
  • Bray M et al. NIH Working Group Report—Using Genomic Information to Guide Weight Management: From Universal to Precision Treatment. Obesity 2016; 24:14–22.
  • Münzberg H, Qualls-Creekmore E, Yu S, Morrison CD & Berthoud HR. Hedonics Act in Unison with the Homeostatic System to Unconsciously Control Body Weight. Forside. Nutr. 2016; 3:6:1-5.
  • Berthoud, HR. Interactions between the “cognitive” and “metabolic” brain in the control of food intake. Physiology & Behavior 2007; 91:486-498.
  • World Health Organization (verdenssundhedsorganisationen). Obesity and Overweight Factsheet no. 311. Tilgængelig på: http://www.who.int/mediacentre/factsheets/fs311/en/ [tilgået juni 2019].

Tengdar greinar