Ef við finnum fyrir streitu í langan tíma, getur það breytt matarlystinni. Það getur aukið hættuna á offitu. Að læra að bregðast við streitu getur hjálpað þér að ná árangri í að léttast.
Þegar við stöndum frammi fyrir áskorunum í lífinu þá er eðlilegt að finna fyrir streitu. Og það er líka mjög algengt. Af þeim sem svöruðu hnattrænni Gallup könnun í 142 löndum árið 2018 gáfu 35 prósent upp að þeir fyndu fyrir streitu stóran hluta dagsins. Þetta form streitu er oft skammvinnt – til dæmis að hafa áhyggjur af skilafresti sem nálgast – og getur örvað okkur til jákvæðra aðgerða.
En ef við finnum fyrir streitu í langan tíma getur það komið niður á heilsu okkar. Við sofum ekki jafn vel, og við hreyfum okkur ekki jafn mikið. Mataræðið breytist líka og við fáum meiri lyst á óhollum mat. Þessi viðbrögð við streitu eiga öll þátt í því að við erum í meiri hættu á að þróa með okkur offitu.
Streita er hluti af „fight or flight“ viðbrögðum okkar, sem hafa hjálpað okkur að lifa af í hættulegum aðstæðum í þúsundir ára. Venjulega upplifum við hana aðeins í stuttan tíma. En nú til dags finnur fólk fyrir streitu stóran hluta dagsins, og þessi viðbrögð eru sífellt virkjuð.
Þegar það gerist, eykst kortisól í blóðinu – eitt af lykilhormónunum sem taka þátt í líffræðilega streituviðbragðinu. Ein áhrifin af auknu kortisóli er aukin matarlyst. Þannig að ef við finnum ávallt fyrir streitu eru meiri líkur á að við borðum meiri mat.
Og ekki bara hvaða tegund af mat sem er. Rannsóknir hafa sýnt að við höllumst meira að orkuríkum mat þegar við finnum fyrir streitu. Það getur verið vegna þess að þessi matur getur hjálpað okkur að minnka tilfinninguna um streitu. Það er ástæðan fyrir því að þetta kallast „vellíðunar-át“.
Þannig að streita fær okkur ekki bara til að borða meira, heldur breytir því hvaða mat við viljum borða. Það útskýrir hvers vegna fólk með offitu hefur tilhneigingu til að hafa meira magn af kortisóli í blóðinu en eðlilegt er. Streita veldur því líka að við sofum ekki eins vel, drekkum meira áfengi og hreyfum okkur minna, en allt þetta eykur hættuna á offitu.
Hvað getum við gert? Það eru margar mismunandi aðferðir sem geta bæði hjálpað til við að taka á streituvaldandi aðstæðum og tilfinningunni um streitu. Lestu greinina til að fá leiðbeiningar um hvernig hægt er að taka á streitu og streitu-áti. Hugsaðu vel um þig: 8 leiðir til að takast á við streitu og ná stjórn á þyngdinni.