Offita er flókinn sjúkdómur og þyngdarstjórnun vekur oft upp margar spurningar.
Annars vegar er offita margbreytilegur sjúkdómur á þann hátt að hann
er mismunandi milli einstaklinga. Mikilvægt er að skilja þetta þar sem
það getur útskýrt hvers vegna þín líkamsstarfsemi getur verið ólík
annarra sem stjórna þyngd sinni á sama hátt.
Hins vegar hefur komið í ljós að mynstur þyngdartaps á meðal
einstaklinga sem eru að reyna að léttast er oft mjög svipað og
fyrirsjáanlegt. Flestir einstaklingar byrja á að léttast mikið og
hratt. Eftir það tekur við tímabil stöðnunar þar sem hraði þyngdartaps
minnkar umtalsvert.
Áður en reynt er að skilja hvers vegna það hægist á þyngdartapinu og það jafnvel staðnar, þá getur verið hjálplegt að kynna sér líffræðina á bak við offitu. Til einföldunar þá þarf líkaminn orku til að halda sér gangandi. Orkuna fáum við úr fæðunni sem við neytum og stundum frá fituforða líkamans. Það hversu hratt líkaminn notar þessa umfram fitu er háð nokkrum þáttum – hegðun og umhverfi eru oft talin þeirra algengust – en raunin er sú að það eru aðrir flóknir þættir sem spila einnig þarna inn í.
Sambandið milli offitu og þessara flóknu þátta hafa áhrif á hvers vegna þyngdartap er oft ekki línulegt, þ.e. hvers vegna það eru sveiflur á þeirri vegferð sem þyngdarstjórnunin er.
Hvaða fleiri þættir geta haft áhrif á hraða þyngdartapsins?
Vissir þú að offita er háð erfðum hjá 40-70% þeirra sem lifa með sjúkdómnum? Genin geta stjórnað hvernig heilinn og miðtaugakerfið senda og taka á móti boðum um vellíðan eftir máltíð – hvort þú finnir fyrir seddu og ánægju. Erfðirnar geta einnig ákvarðað hvernig líkaminn bregst við umhverfisþáttum en það kallast svipgerð og sem stendur er mikil áhersla lögð á hana á meðal sérfræðinga sem rannsaka offitu. Dæmi um þetta er tilhneiging þín til að safna fituforða á magasvæði eða ekki.
Hjá flestum er orsök offitu þróun fjölmargra gena sem vinna saman og auka líkur á offitu einstaklings, frekar en stökkbreyting á stöku geni.
Boðin sem heilinn tekur á móti sem vekja tilfinningu um hungur eða seddu er stjórnað af hormónum sem koma frá mismunandi svæðum í líkamanum. Til dæmis koma hormón í maga (grelín) af stað hungurtilfinningu á meðan hormón í fitufrumum (leptín) hafa stjórn á eða hamla hungurtilfinningu.
Hjá sumum einstaklingum sem lifa með offitu starfar leptín hormónið ekki eins og því er ætlað að gera og það veldur aukinni hungurtilfinningu.
Óháð því hversu mikinn kraft einstaklingar setja í að reyna að ná fram þyngdartapi, þá upplifa margir tímabil stöðnunar einhvern tímann á þessari vegferð. Án viðeigandi stuðnings getur það verið letjandi og erfitt að skilja.
Þegar vegferð þyngdarstjórnunar hefst er venjulega ráðlagt að draga úr fjölda hitaeininga sem er neytt. Það að draga úr fjölda hitaeininga getur leitt til verulegs þyngdartaps í upphafi, sérstaklega samhliða hreyfingu. Einstaklingum í yfirþyngd og með offitu er ráðlagt að fara í röska göngutúra fjórum sinnum í viku.
Eftir því sem þú heldur þessari vegferð áfram munt þú finna að hraði þyngdartapsins er ekki sá sami og í upphafi. Í raun verður stöðnun þyngdartaps hjá flestum og þú getur jafnvel fundið fyrir þyngdaraukningu. Það eru hormónin sem valda því.
Eftir því sem þú neytir færri hitaeininga hægist á orkunotkuninni sem það tekur að léttast. Auk þess eykst hungurtilfinning (matarlystin). Með öðrum orðum, eftir því sem þú léttist meira, þeim mun sterkari eru boðin frá heilanum sem valda hungurtilfinningu. Í raun veldur þyngdartap hormónabreytingum sem ýta undir þyngdaraukningu. Skiljanlega getur þetta látið einstaklingnum líða eins og hann sé að berjast á móti vindi.
Góðu fréttirnar eru þær að með rétta teyminu er hægt að komast yfir stöðnun þyngdartaps. Kynntu þér efni þessarar síðu til að undirbúa þig fyrir samtalið við heilbrigðisstarfsfólk um þyngdarstjórnunina.