Go to the page content

1. hluti – Ofþyngd og fylgisjúkdómar

Eftir Sten Madsbad, prófessor, yfirlækni, dr.med., Innkirtladeild, Hvidovre Hospital

Algengi ofþyngdar og offitu færist í aukana í Danmörku eins og annars staðar í heiminum. Líkamsþyngdarstuðull (Body Mass Index, BMI) er notaður til að skilgreina hvort einstaklingur er undir kjörþyngd, í kjörþyngd eða of þungur. Meira en helmingur dönsku þjóðarinnar, 18 ára og eldri, er of þungur og um það bil 17‑20% eru með offitu með líkamsþyngdarstuðul yfir 30 kg/m2.

Líkamsþyngdarstuðull hefur tiltölulega litla fylgni við hættuna á að fá fylgisjúkdóma, en vöðvastæltir einstaklingar eru með háan líkamsþyngdarstuðul og lága fituprósentu. En það er ekki bara ofþyngd, heldur líka dreifing fitunnar sem segir til um hættuna á að fá fylgisjúkdóma. Kviðfita (ístra/bumba) eykur hættuna, en fita sem sest á neðri hluta líkamans, þ.e. rass og læri, virðist vernda gegn t.d. hjarta- og æðasjúkdómum (Yusuf S et al. Lancet 2005; 366: 1640-49).

Einstaklingar með líkamsþyngdarstuðul yfir 30 kg/m2 þegar þeir eru um fertugt, missa að meðaltali 5-6 ár af lífi sínu – þó er mikill breytileiki á milli einstaklinga. Um það bil 25% einstaklinga með líkamsþyngdarstuðul yfir 25 kg/m2 eru skilgreindir sem „heilbrigðir“ einstaklingar með ofþyngd án merkja um fylgisjúkdóma ofþyngdarinnar. Hinir eru í mikilli hættu á að fá fylgisjúkdóma ofþyngdarinnar svo sem sykursýki af tegund 2, hjarta- og æðasjúkdóma, fitulifur, kæfisvefn, slitgigt og krabbamein, og það á sérstaklega við um fólk sem hefur mikla kviðfitu (ístru/bumbu). Margir einstaklingar með offitu hafa einnig efnaskiptasjúkdóm, sem er sambland af offitu á kvið (ístru/bumbu), háum blóðþrýstingi, háu kólesteróli og forstigi sykursýki af tegund 2. Einstaklingar með efnaskiptasjúkdóm eru í mjög mikilli hættu á að fá sykursýki af tegund 2 og hjarta- og æðasjúkdóma.

Mynd 1. Yfirlit yfir helstu fylgisjúkdóma ofþyngdar

Af hverju er svona erfitt að létta sig?

Meirihluti einstaklinga með ofþyngd vilja létta sig og flestir geta líka losnað við nokkur kíló. En margir munu ná sömu þyngd eða meiri en fyrir þyngdartapið á 1-2 árum. Það er vegna þess að líkaminn dregur úr orkubrennslu í tilraun til að vernda fituforða og viðhalda þyngdinni. Ef einstaklingur borðar venjulega 2000 kkal á sólarhring og léttir sig um 10 kg þarf að miða við að borða u.þ.b. 10% minna af mat til að forðast að þyngjast aftur. En genin okkar draga líka úr orkunotkun um 10-15% þegar við höfum lést. Því þarf í rauninni að neyta 20-25% færri hitaeininga til að viðhalda þyngdartapinu. Þyngdartapið veldur líka breytingum á hormónunum sem stjórna matarlystinni, þannig að við verðum svangari og þurfum að borða meira til að verða södd. Flestir eiga erfitt með að standast svengdartilfinninguna og það er skýringin á því að maður þyngist aftur.

Annað vandamál er að flest okkar þyngjast hægt og rólega frá unglingsárunum og upp að sextugsaldri. Í því sambandi er það áhyggjuefni að um það bil 25% allra danskra barna eru í ofþyngd – vegna þess að börn í ofþyngd eru yfirleitt líka í ofþyngd á fullorðinsaldri.

Það skiptir miklu máli, með tilliti til fylgisjúkdóma, að léttast

Mismunandi er hversu mikil áhrif þyngdartap hefur á fylgisjúkdóma, en oft er nauðsynlegt að léttast um 5-10% til að ná langvarandi áhrifum á fylgisjúkdómana.

Til þess að ná þyngdartapi, viðhalda því og minnka þannig áhættuna á fylgisjúkdómum þarf í flestum tilfellum þrennt:

  1. Að hitta næringarfræðing, hjúkrunarfræðing eða annan meðferðaraðila oft, til stuðnings og eftirlits með meðferðinni.
  2. Að neyta fitusnauðrar fæðu á föstum matmálstímum, þ.m.t. morgunmat, og að færa dagbók yfir það sem neytt er.
  3. Að hreyfa sig í um það bil eina klukkustund á dag, 5 daga vikunnar.

2. hluti – Meðferð offitu

Lífsstílsbreytingar – mataræði og hreyfing

Meginreglurnar í meðferð offitu eru að borða hollan mat, auka hreyfingu og minnka kyrrsetu.

Raunhæft er að ná 5-10 kg þyngdartapi með lífsstílsbreytingum og mestur árangur næst með því að hitta klínískan næringarfræðing eða hjúkrunarfræðing sem hefur þekkingu á atferlisbreytingum, mataræði og hreyfingu. Í þeim rannsóknum þar sem árangur var hvað mestur léttist um það bil helmingur sjúklinganna um meira en 5% og hélt hluta af þyngdartapinu í 2-4 ár. Ef heimsóknum til næringarfræðings eða hjúkrunarfræðings er hætt mun meirihluti sjúklinga þyngjast fljótt aftur.

Yfirleitt mælum við með því að minnka neyslu hitaeininga um 500 kkal á sólarhring en það leiðir til um það bil 6-10 kg þyngdartaps, á nokkrum mánuðum. Í þessum fasa hefur hreyfing ekki úrslitaþýðingu, en þegar viðhalda á þyngdartapinu, virðist hreyfing halda matarlyst í jafnvægi og auka orkunotkunina.

Við mælum með því að borðaðar séu 4-6 máltíðir yfir daginn, í rólegheitum, og að maturinn sé tugginn vandlega. Nota skal litla diska, setja grænmeti á hálfan diskinn, kartöflur, hrísgrjón eða pasta á 25% af diskinum og kjöt, fisk eða fuglakjöt á það sem eftir er (T-disks aðferðin). Aðrar þyngdartapsaðferðir byggjast á því að telja hitaeiningar eða á ad libitum-mataræði (eftir geðþótta) með lágan sykurstuðul og minni neyslu fitu og kolvetnaríkra matvara – þar með talið sykraðra gosdrykkja, áfengis og „skyndibita“, til þess að hafa mataræðið orkuskert.

Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að ekkert eitt ákveðið mataræði umfram annað veldur meira þyngdartapi (Johnston et al; JAMA 2014 Sep 3;312(9):923-33. doi: 10.1001/jama.2014.10397). Eina mataræðið sem hefur sýnt fram á að minnka hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum er „Miðjarðarhafsmataræðið“ (Widmer et al; The American Journal of Medicine; Volume 128, Issue 3, March 2015, Pages 229-238). Miðjarðarhafsmataræðið samanstendur af miklu grænmeti, ávöxtum, kornvörum og belgjurtum, hóflegu magni af fiski, litlu af mettuðum fitusýrum með ólífuolíu sem aðalgjafa fitu og litlu magni af rauðu kjöti.

Það skal ítrekað að því strangara sem mataræðið er, þeim mun erfiðara er að fylgja því og því fyrr gefst maður upp á að fylgja breyttu mataræði. Án sérstakrar áætlunar til að viðhalda þyngdartapinu er hættan á að þyngjast aftur nánast 100% innan tveggja ára – óháð því hvaða reglum um mataræði er fylgt.

Mikilvægt er að koma aukinni hreyfingu inn í hversdagslífið smátt og smátt, á sama tíma og mataræðinu er breytt. Hreyfingin ætti að vera 45-60 mínútur inni í daglegri rútínu, u.þ.b. 5 sinnum í viku. Það samsvarar brennslu u.þ.b. 2000 kkal á viku. Hreyfingunni er hægt að skipta upp í nokkra hluta sem standa í 10 mínútur hver og hún getur verið hröð ganga, hjólreiðar, sund, róður eða aðrar athafnir sem henta líkamlegri getu hvers og eins. Hreyfing eykur vöðvamassann, minnkar mittismálið og hefur jákvæð áhrif á fylgisjúkdómana.

Atferlisbreytingar geta líka falist í því að forðast staði sem hvetja til matarneyslu svo sem „skyndibitastaði“, veitingastaði og sælgætisverslanir, sem og að halda dagbók yfir daglega matarneyslu. Mikilvægt er að hafa áætlun um næsta skref í lífsstílsbreytingunum, ef þyngdin eykst.

3. hluti – Duftkúrar og skurðaðgerðir

Duftkúrar

Með því að nota próteinríka duftkúra er mögulegt að léttast hratt og mikið. Nú til dags eru notaðir duftkúrar sem innihalda u.þ.b. 800 kkal á dag. Rannsóknir hafa sýnt að það er mögulegt að missa 10-15 kg á 8-10 vikum ef duftkúrinn er notaður ásamt tíðum viðtölum við næringarfræðing eða hjúkrunarfræðing. Flestar rannsóknir hafa þó líka sýnt að flestir sjúklinganna bæta á sig þyngdinni sem þeir missa, á 1-2 árum. Þess vegna hefur það úrslitaþýðingu ef árangur á að nást að breyta lífsstílnum með því að venja sig á hitaeiningaskert mataræði (neyta færri hitaeininga en maður notar) á sama tíma og duftkúrinn er trappaður rólega niður á nokkrum vikum og hreyfing er aukin á sama tíma.

Offituaðgerðir

Með offituaðgerðum getur náðst umtalsvert þyngdartap, sem helst í mörg ár. Til að fá tilvísun í offituaðgerð þarf að vera með líkamsþyngdarstuðul yfir 35 kg/m2, sykursýki af tegund 2, háan blóðþrýsting eða miklar slitgigtarskemmdir, eða líkamsþyngdarstuðul yfir 40 kg/m2. Offituaðgerðir geta haft í för með sér u.þ.b. 40 kg þyngdartap. Í rauninni eru offituaðgerð eina meðferðin sem hefur í för með sér mikið og langvarandi þyngdartap.

Ofþyngd er flókið langvinnt ástand, sem erfitt er að meðhöndla og þarfnast í flestum tilfellum ævilangrar meðferðar.

Tengdar greinar

Ofþyngd er erfið, og það er engin skyndilausn
Offita   Þyngdartap | 5 Lágm. lestur

Ofþyngd er erfið, og það er engin skyndilausn

Tina Vilsbøll er prófessor og yfirlæknir og hún telur að meðferðaraðilar ættu að vera miklu færari í því að grípa tækifæri til umræðna þegar þeir taka á móti sjúklingi með offitu. Einnig dreymir hana um að meðferð einstaklinga með offitu verði allt önnur í framtíðinni.