„Með offitu. Feit/-ur. Með ofþyngd. Vel nærð/-ur. Kröftug/-ur. Í yfirstærð. Vel bólstruð/bólstraður. Óholl þyngd. Þetta eru bara nokkur af þeim fjölmörgu lýsingum sem notaðar eru til að lýsa þyngd fólks.“
Lýsa þessi orð fordómum? Láta þau þér líða eins og þú sért einskis virði? Gera þau þig reiða/n? Skiptir máli í hvaða samhengi þessi orð eru notuð?“ - Angela Chesworth
Hvað eigum við að kalla hana? Það kemur á óvart hversu mikið er einblínt á svarið við þessari spurningu þegar talað er um offitu. Sumir vilja nota „feit/-ur“ af því að þeir telja að það sé raunveruleg lýsing. Aðrir stuðast af „feit/-ur“ og vilja heldur nota „ofþyngd“, af því að það sé hlutlægt, klínískt orð.
Ég tók nýlega þátt í ráðstefnu í Bretlandi um offitu og þyngdarstjórnun og heyrði ræðumann nota orðasambandið fólk sem er með „meiri þyngd“. Þetta olli mjög neikvæðum viðbrögðum hjá ákveðnum hluta áheyrenda sem fannst þetta greinilega bæði lýsa fordómum og vera móðgandi.
Ég tek virkan þátt í starfi félagasamtaka sem styðja fólk með offitu. Ég tel að fordómar séu mjög stór þáttur í áskoruninni og það er að sjálfsögðu í því samhengi sem skilgreiningar – og ágreiningur um skilgreiningar – koma til. Þar sem við erum öll einstaklingar er mjög erfitt að gera öllum til hæfis. Það sem einum finnst ef til vill vera móðgandi, hefur ekki truflandi áhrif á annan.
Fyrir mér er það samhengið sem ræður því hvort orð er niðurlægjandi. Ef einhver ókunnugur sem á leið hjá kallar mann „feitan“, getur maður orðið leiður, reiður og jafnvel liðið eins og maður sé einskis virði. En hvað ef læknir segir við þig: „Ég hef áhyggjur af því að líkaminn sé að safna á sig of mikilli fitu og það getur valdið heilsufarsvandamálum í framtíðinni.“ Hefur það sömu áhrif á þig?
Oft er litið á offitu sem eitthvað sem maður er sekur um og að það skapar möguleika á að gert sé grín að fólki, því mismunað og það lagt í einelti. Þess vegna hafði ég áhyggjur af því eftir ráðstefnuna, að svo mikil áhersla hafði verið lögð á „hvað eigum við að kalla hana?“ Eru fordómarnir sem birtast í „borðaðu minna, hreyfðu þig meira“ ekki miklu mikilvægari en það hvað við köllum sjúkdóminn?
Það sem fólk skilur ekki er að ég er virk. Ég hef verið í líkamlega krefjandi fullu starfi síðan ég hætti í námi. Ég hef líka verið með einkaþjálfara og ég fer í heilsurækt og ég syndi á hverjum degi. Þannig að þú getur sagt það sem þú vilt og kallað mig feita, með ofþyngd, vel nærða, kröftuga eða hvað sem þú vilt. En ef þú hefur þörf fyrir að dæma mig, gerðu það þá samkvæmt þínum eigin athugunum, en ekki samkvæmt upplýsingum úr fjölmiðlum eða frá fagfólki sem hefur hvorki reynslu né skilning á því hvað það þýðir raunverulega að vera með offitu.
Ég tel að á ráðstefnum og hverjum þeim vettvangi þar sem offita er rædd væri gagnlegt að meiri tjáskipti væru á milli fræðimanna og sjúklinga. Samræður þeirra á milli myndu stuðla að meiri skilningi á þeim áskorunum sem fólk með offitu stendur frammi fyrir og skapa markvissari áætlanir til framfara með sameiginlegu átaki og ekki bara með einu takmörkuðu, fordómafullu orði.