Að gangast í gegnum mikið þyngdartap er oft stór áfangasigur fyrir
heilsu og lífsgæði, en nýjar áskoranir geta fylgt í kjölfarið sem fólk
bjóst ekki endilega við. Laus húð, sem getur staðið eftir getur haft
verulega neikvæð áhrif á bæði sjálfsmynd og líkamlega virkni þessara
einstaklinga. Fyrir marga getur þetta orðið stórt vandamál sem dregur
úr ánægju með þyngdartapið og lífsgæðum almennt. Lýtalækningar geta
hjálpað þessum einstaklingum að ná fram líkamlegri heild sem
endurspeglar þann árangur og vinnu sem einstaklingurinn hefur lagt í ferlið.
Davíð Jensson lýtalæknir á Dea Medica fjallar um áhrif ofþyngdar á
líkamann, viðbrögð húðarinnar við auknu álagi og úrræði sem geta
stuðlað að meiri sátt og betri sjálfsmynd hjá þeim einstaklingum sem
líða af eftirkvillum eftir mikið þyngdartap
Þegar líkaminn stækkar, hefur húðin þann eiginleika að teygjast í
samræmi við aukið rúmmál en þessi aðlögunarhæfni er takmörkuð. Fyrir
einstaklinga sem hafa borið mörg aukakíló í lengri tíma, getur húðin
teygst umfram sín þolmörk sem leiðir til óafturkræfs skaða í
húðplötunni. Þegar þetta gerist slitnar bandvefur hennar og húðin
verður þá ófær um að endurheimta fyrra útlit. Þessi slit sjást sem
ljósar eða dökkar rákir á yfirborði húðarinnar og geta oft verið
áberandi, sérstaklega á svæðum eins og maga, mjöðmum og lærum. Húðslit
eru líkamleg merki þess að húðin hafi verið undir miklu álagi og hefur
misst getuna til að draga sig saman að fullu. Þetta leiðir til þess að
eftir mikið þyngdartap getur fólk setið uppi með lausa, hangandi húð
sem myndar fellingar víðsvegar um líkamann. Þessar húðfellingar eru
ekki aðeins útlitslegt vandamál. Í þeim getur safnast raki sem getur
valdið ertingu og jafnvel sýkingum. Einnig getur hún verið hamlandi í
daglegu lífi þar sem húðin getur takmarkað hreyfigetu, truflað klæðnað
og gert það erfiðara að viðhalda hreinlæti.
Slitin, laus og hangandi húð eins og lýst er hér fyrir ofan er
augljós merki þess að húðin hefur orðið fyrir varanlegum skaða. Hjá
einstaklingum sem hafa gengist undir mjög mikið þyngdartap eru
vefjaskemmdir ekki staðbundnar við húðina. Undirliggjandi stoðvefir í
fitulagi sem og vöðvahimnur geta líka orðið fyrir óafturkræfum
skemmdum sökum álags sem fylgir ofþyngd. Eins og með húðslit er þetta
einstaklingsbundið og enginn fastur mælikvarði er til sem segir
nákvæmlega hvenær eða hversu mikil ofþyngd veldur varanlegum skemmdum
í dýpri lögum líkamans. Oft er talað um að einstaklingar með yfirþyngd
yfir 20 kg séu í aukinni hættu á að þróa með sér skemmdir í dýpri
bandvefjum. Þegar skurðaðgerð eins og svuntuaðgerð er framkvæmd á
þessum einstaklingum er mikilvægt að fræða þá um hvernig
undirliggjandi stoðvefir spila hlutverk í lokaniðurstöðunni. Yfirleitt
er ekki hægt að ná jafngóðum árangri hjá þeim sem hafa orðið fyrir
alvarlegri skemmdum á dýpri bandvef samanborið við þá sem hafa
minniháttar húðskemmdir. Það kemur fyrir að einstaklingar byggja sínar
væntingar á myndum á netinu af einstaklingum sem hafa gengist í gegnum
svipaðar aðgerðir en á allt öðrum forsendum. Því skiptir miklu máli að
fara vel yfir væntingar en einnig hvaða árangri er raunhæft að ná fram
í hverju tilfelli fyrir sig.
Aðgerðir sem framkvæmdar eru eftir mikið þyngdartap eru að mestu
leiti sömu aðgerðir og flokkast undir fegrunarlækningar. Það væri þó
rangt að flokka þær sem slíkar. Hjá einstaklingum sem misst hafa mikla
þyngd, til dæmis meira en 30-40 kíló, væri réttara að tala um
lífsstílsaðgerðir. Aðgerðirnar snúast því ekki eingöngu um
útlitsbætur, heldur einnig um að bæta heilsu, lífsgæði og líkamlega
virkni. Í þessum aðgerðum eru oft fjarlægð mörg kíló af lausri húð.
Húð sem getur takmarkað hreyfigetu og haft áhrif á daglegar athafnir,
þar með talið líkamsrækt, sem er ein mikilvægasta stoðin í
heilsueflingu. Þessar aðgerðir eru þess vegna ekki einungis spurning
um útlit, heldur snúa einnig að því að fjarlæga líkamleg einkenni sem
og að auka lífsgæði einstaklinga.
Lýtalækningar hafa í gegnum árin þróað fjölbreytt úrræði til að
hjálpa einstaklingum sem líða af eftirkvillum eftir mikið þyngdartap.
Eins og fram hefur komið snúa aðgerðirnar að því að ná fram betra
útliti, minnka eða fjarlægja líkamleg einkenni og bæta lífsgæði.
Skurðaðgerðir eins og svuntuaðgerðir, upphandleggsplastik,
brjóstalyftingar, læralyftingar og andlitslyftingar eru algeng úrræði
fyrir fólk sem hefur upplifað miklar breytingar á líkama sínum.
Almennt má segja að því meiri húð sem þarf að fjarlægja þeim mun
lengri þurfa skurðirnir og þá örin að vera. Öraþroski er mismunandi
eftir einstaklingum. Öll ör fara í gegnum þroskaferli þar sem bólgur
og roði koma fram í örinu sem gera örin meira áberandi um tíma. Þetta
þroskaferli endist í allt frá 9 til 18 mánuðum. Yfirleitt eru
bólgurnar í örunum gengnar til baka að mestu eftir 12 mánuði og örin
verða þá hvít og minna áberandi.
Tilfellum einstaklinga sem glíma við miklar húðfellingar eftir
þyngdartap hefur fjölgað síðustu áratugi, samhliða aukinni tíðni
offitu og auknu framboði af meðferðarúrræðum. Flestar þessar aðgerðir
eru framkvæmdar á einkareknum skurðstofum, bæði á Íslandi og erlendis,
þar sem sjúklingar bera sjálfir kostnaðinn. Hins vegar, á Íslandi og í
öðrum Norðurlöndum, eru í völdum tilvikum framkvæmdar aðgerðir á vegum
hins opinbera.
Til að vera gjaldgengur í slíkar aðgerðir þarf einstaklingur að
uppfylla ákveðin skilyrði, sem þó eru misjöfn milli landa. Yfirleitt
er það krafa um líkamsþyngdarstuðul sem ræður úrslitum í því hvort
einstaklingur sé gjaldgengur í aðgerð. Algengt er að yngri
einstaklingar þurfi að hafa líkamsþyngdarstuðul undir 25, en fyrir
fólk yfir fimmtugt getur stuðullinn verið á bilinu 27 til 28. Stór
hluti einstaklinga, sem þrátt fyrir að hafa misst mikla þyngd, ná ekki
þessum gildum. Þessir einstaklingar geta þá leitað til lýtalækna sem
bjóða upp á slíkar aðgerðir á einkareknum stofum. Í tilfellum þar sem
einstaklingur hefur misst 50–60 kíló getur aðgerðin verið umfangsmeiri
og krafist frekari umgjarðar en sú sem einkareknar skurðstofur geta
veitt. Til að tryggja öryggi sjúklinga væri skynsamlegt að þessar
aðgerðir væru framkvæmdar á sjúkrahúsum. Margir þessara einstaklinga,
sem hafa oft lagt mikið á sig til að léttast, eiga ekki möguleika á að
uppfylla kröfur um líkamsþyngdarstuðul og lenda þar með á milli skips
og bryggju ef svo má að orði komast. Þetta er mál sem ætti að fá aukna athygli.
Hér fyrir neðan fer ég lauslega yfir nokkur algengustu inngrip sem
framkvæmd eru eftir mikið þyngdartap. Aðgerðirnar eiga það
sameiginlegt að hjálpa fólki að ná fram þeirri sjálfsmynd og
lífsánægju sem það leitar að í kjölfar mikils þyngdartaps.
1. Svuntuaðgerð
Svuntuaðgerð (abdominoplasty) er aðgerð sem miðar að því að
fjarlægja lausa húð og fitu frá kviðsvæðinu. Hangandi laus húð á
neðanverðum kvið er fjarlægð og húðin strekkt til að slétta og móta
útlit. Yfirleitt er gert fitusog á hliðum til að móta hliðar og fá
fram betra útlit á mjaðmasvæði. Oft er kviðurinn styrktur með því að
sauma saman magavöðva í miðlínu sem hjálpar til við að styrkja kviðinn
og bæta útlitið enn frekar.
2. Upphandleggsplastik
Upphandleggsplastik (brachioplastik) er aðgerð sem miðar að því að
fjarlægja lausa húð og fitu frá upphandleggjum. Aðgerðinni lýkur með
því að húðin er teygð og saumuð til að bæta útlit upphandleggja. Örin
sem myndast byrja frá innanverðum olnboga og inn í handarkrika, og
reynt er að hafa örin staðsett þannig að þau sjáist ekki að framan né
aftanverðu þegar einstaklingur er með hendur niður með líkamanum.
Þessi aðgerð getur hjálpað til við að bæta útlit og draga úr óþægindum
sem tengjast lausri húð, eins og við hreyfingu eða við klæðaburð.
3. Brjóstalyfting
Brjóstalyfting (mastopexy) er aðgerð sem miðar að því að lyfta og
móta brjóstin. Þetta felur í sér að fjarlægja lausa húð, lyfta
brjóstvörtum, og móta brjóstin og/eða brjóstvegginn. Brjóstalyfting
getur haft mjög jákvæð áhrif á sjálfsmynd og sjálfsálit einstaklinga
sem hafa gengið í gegnum mikið þyngdartap.
4. Læralyfting
Læralyfting er aðgerð sem fjarlægir lausa húð frá lærum. Aðgerðin
felur í sér að húðfellingar innanvert á lærum eru fjarlægðar, húðin er
dregin saman og saumuð til að ná fram sléttara og mótaðra útliti. Örin
geta verið aðeins mismunandi en liggja innanvert á lærum og í vissum
tilfellum upp í nára. Læralyfting getur bætt útlit læranna og dregið
úr óþægindum sem tengjast lausri húð.
5. Andlitslyfting eða hálslyfting
Andlitslyfting (rhytidectomy) er aðgerð sem miðar að því að lyfta og
móta andlit og háls. Þessar aðgerðir eru oft framkvæmdar á þeim sem
hafa misst töluvert af fyllingu í andliti og hálsi eftir þyngdartap.
Aðgerðin felur í sér að fjarlægja lausa húð og lyfta djúpu vefjum
andlitsins og þannig fá fram betri vinkil milli háls og höku, skerpa á
kjálkalínu og minnka djúpar fellingar milli nefs og kinnar og neðan
við munnvik. Þessar aðgerðir geta haft veruleg áhrif á sjálfsmynd og
lífsgæði fólks sem hefur upplifað mikla breytingu í andliti og hálsi.
Með því að endurheimta fyllingu og jafnvægi í andlitinu getur
einstaklingur upplifað aukna ánægju með útlit sitt og betri andlega líðan.
Eftir mikið þyngdartap getur laus húð verið mikil áskorun sem
dregur úr líkamlegri og andlegri vellíðan einstaklinga. Lýtalækningar
í dag hafa opnað fjölbreyttar leiðir til að bæta lífsgæði þeirra sem
glíma við þessi vandamál. Aðgerðir eins og svuntuaðgerðir,
upphandleggsplastik, brjóstalyftingar, læralyftingar og
andlitslyftingar geta hjálpað fólki að ná fram jákvæðari sjálfsmynd,
auknum þægindum og meiri vellíðan í daglegu lífi. Með réttri aðstoð er
hægt að endurheimta útlit sem betur samræmist hinum nýja lífsstíl og
stuðla þannig að heildrænni vellíðan.