Go to the page content
Líf með offitu | 5 Lágm. lestur

“Matur og áfengi voru ekki vandamálið, þetta var mín flóttaleið”

Matreiðslumeistarinn og framleiðslustjórinn Rafn Heiðar Ingólfsson er 48 ára gamall og þekkir vel hvernig það er að lifa með offitu. Árið 2011 leitaði hann sér loks sérhæfðrar aðstoðar heilbrigðisstarfsfólks og eftir að hafa fylgt þeirra ráðleggingum breyttist lífið til hins betra. Í þessu viðtali segir Rafn frá æsku sinni, baráttunni við offitu og alkóhólisma og vegferðinni í átt að betri andlegri og líkamlegri heilsu.

Rafn Heiðar ólst upp á Fáskrúðsfirði hjá ungri einstæðri móður sem bjó í foreldrahúsum og voru heimilisaðstæður oft á tíðum erfiðar vegna drykkju og ofbeldis sem fylgdi oft í kjölfarið. Móðir Rafns var iðulega á hinum ýmsu megrunarkúrum, vigtaði sig oft á dag og telur hann líklegt að aðstæður í æsku hafi verið kveikjan að baráttu hans við ofþyngd og alkóhólisma „Ég náði að deyfa slæmu tilfinningarnar með því að neyta matar í miklu magni“.

„Mér fannst ég aldrei vera feitur sem barn. Ég var bara með öðruvísi vaxtarlag, stórbeinóttur en ekkert endilega þyngri en aðrir fannst mér. Á mínum unglingsárum man ég eftir að hafa farið í mælingar og vigtanir á heilsugæslustöðinni. „Það var ekki fyrr en þá sem ég sá að matarneyslan mín var stjórnlaus. Það var fyrst þá sem hugur minn byrjaði að skapa þá hugsun að ég væri matarfíkill. Mér fannst ég aldrei fá nóg“.

Matarfíknina frá æsku tók hann með inn í fullorðinsárin

,,Ég hreyfði mig mikið sem barn og það var mikill kraftur í mér en það var ekki fyrr en ég fór að læra matreiðslu sem ég hætti allri hreyfingu og gat alvarlega fóðrað fíknina“.

Í dag vinnur Rafn sem framleiðslustjóri og matreiðslumeistari, en þegar Rafn hóf feril sinn í matargerð voru vinnudagarnir langir og strangir. Hann segir að starfið hafa haft mikil áhrif á líf sitt og sér hann eftir uppeldisárum barna sinna þar sem hann kveðst hafa verið mest megnis fjarverandi vegna álags og mikillar vinnu.

„Það var mikið álag sem nemi og líka mikið álag í sjálfri vinnunni sem hafði einnig áhrif á heilsuna. Maður þarf alltaf að smakka matinn og ég upplifði það aldrei að vera svangur í vinnunni. Svo þegar ég kom heim á kvöldin hélt ég áfram að borða“.

Sjálfur hefur hann prófað ýmsa megrunarkúra á lífsleiðinni og misst mörg kíló sem komu þó jafnharðan aftur þar sem þetta voru aðeins skammtímalausnir.

Aðstoð frá fagaðilum var mikilvæg fyrir þyngdartap Rafns

Árið 2008 flytur Rafn ásamt þáverandi konu og fjórum börnum til Danmerkur en á þeim tíma var hann á mjög slæmum stað andlega. 

„Ég myndi klárlega lýsa sjálfum mér sem offitusjúklingi á þessum tíma. Mér leið svo rosalega illa inni í mér en það var algjör vendipunktur þegar mér var farið að líða þannig. Ég vildi finna einhverja lausn á vandamálum mínum og taldi ofþyngdina vera eina helstu ástæðuna fyrir þunglyndinu á sínum tíma“.

Það var ekki fyrr en Rafn leitaði sér aðstoðar hjá sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki í Danmörku að líf hans fór að breytast til hins betra. 

image-2

„Ég léttist um þó nokkuð mörg kíló og lífið breyttist til muna. Ég gat loksins beygt mig niður, reimt skóna mína og allt varð auðveldara. Mér byrjaði að líða betur og sjálfstraustið jókst gríðarlega. Þetta var upphafið að einhverju yndislegu. Ég fann að ég átti betra líf skilið“

-Rafn Heiðar

Rafn kemst þó fljótt að því að hann fer úr einni fíkn í aðra, og þótt að hann hafi náð tökum á þyngdinni þá missir hann tökin á drykkjunni. 

Fer úr einni fíkn í aðra

Rafn segir að eftir að hann leitaði sér aðstoðar hjá heilbrigðisstarfsfólki tóku við erfið ár þar sem hann byrjar að drekka meira en hann var vanur og segir hann að í byrjun hafi hann ekki gert sér grein fyrir hversu mikil áhrif drykkjan hafði á fjölskylduna.

„Ég tók ekki mark á þeirri hugsun að áfengi gæti verið orðið vandamál. Áfengi hefur þau áhrif að þú heldur að allt annað sé vandamál en áfengið sjálft. Fjölskyldan mín var farin að þvælast fyrir mér vegna drykkju“. Og eftir að fjölskyldan flutti heim til Íslands, varð ástandið enn verra fyrir Rafn.

Ári seinna var hann kominn á botninn í drykkju og drakk frá sér fjölskylduna. „Það erfiðasta fyrir mig var að horfa á eftir börnunum mínum sem gengu út um dyrnar ásamt mömmu sinni. Það var botninn og ég var andlega og líkamlega kominn í þrot“.

Á þessum tíma ákveður hann að leita sér aðstoðar hjá vini sínum sem er lögreglumaður og óvirkur alkóhólisti, og þarna tekur nýtt ferli við. Rafn fer á AA fundi og nær að mynda tengsl við fólk sem hann skildi og sem skildu hann. Lífið hans Rafns er allt öðruvísi í dag og heldur hann nú upp á átta ára edrú-afmæli.  

Nýtt líf tekur við

Þó að lífið hafi gjörbreyst eftir baráttu hans við offitu þá breyttist það ekki til hins betra fyrr en hann varð edrú og lýsir hann því sem upphafinu á nýju lífi.

Rafn segir að hann hafi fundið mikla gleði í hreyfingu og að hreyfing hjálpi honum að stuðla að bæði andlegri og líkamlegri heilsu hans. Hann hefur verið duglegur að stunda hlaup frá byrjun ársins 2018 þegar hann skráði sig í hlaupahóp Hauka fyrir byrjendur og var kosinn nýliði ársins í nóvember sama ár „Þetta gaf mér blóð á tennurnar og ég vildi bara vera besta útgáfan af sjálfum mér“.

Rafn segir að í dag sé hann sáttur við sjálfan sig og nýtur lífsins, en hann elskar að fara út að borða með konunni sinni og njóta samverustunda með börnunum og barnabörnum. Á kvöldin hugsar hann mjög mikið um hvað hann hefur í dag og finnur fyrir miklu þakklæti. 

Þótt að það sé erfitt, þá er mikilvægt að opna sig um fortíð sína

Rafn Heiðar segir ekki auðvelt að opna sig um fortíð sína en markmiðið sé að aðstoða aðra í svipuðum sporum.

„Hvort sem þú átt við offitu- eða áfengisvandamál að stríða eða hefur jafnvel alist upp við slæmar aðstæður, þá vil ég endilega að rödd mín heyrist. Það er afar mikilvægt að tjá sig um þessa hluti. Ég vil endilega gefa af mér og hjálpa öðrum ef ég get.“

Í lokin gefur Rafn því fólki ráð sem er að kljást við svipuð vandamál og hann hefur verið í baráttu við. Hann segir að það mikilvægasta sem hann hafi gert var að fá aðstoð frá fagfólki og ná tökum á heilsu sinni.

,,Númer eitt, tvö og þrjú er að kafa dýpra inn á við til þess að finna rót vandans, svo að sjálfsögðu að leita aðstoðar fagfólks. Matur og áfengi voru ekki vandamálið, þetta var mín flóttaleið“.

Tengdar greinar

Carina Jørgensen: „Sálrænar orsakir ofþyngdar eru sá þáttur sem fólki yfirsést“
Líf með offitu | 5 Lágm. lestur

Carina Jørgensen: „Sálrænar orsakir ofþyngdar eru sá þáttur sem fólki yfirsést“

Carina Jørgensen er 47 ára og er frá Odsherred á Sjálandi. Carina hefur menntun sem skrifstofumaður og læknaritari, á þrjár dætur og kærasta og er virk í landssamtökunum um ofþyngd. Carina barðist í mörg ár við sálrænar áskoranir, átröskun og ofþyngd, þangað til hún fékk þá hjálp sem hún hafði þörf fyrir.

Ráð Bjarne um ofþyngd og COVID-19
Líf með offitu | 3 Lágm. lestur

Ráð Bjarne um ofþyngd og COVID-19

Það er alltaf erfitt að vera með ofþyngd, en þegar maður þarf að „halda sig heima“ – og neyðist til að fara ekki út úr húsi – getur það verið ennþá erfiðari barátta en áður.