Go to the page content
Líf með offitu | 3 Lágm. lestur

Ég hef lifað með offitu nánast allt mitt líf

Sólveig Sigurðardóttir, forseti ECPO og einstaklingur sem lifir með offitu.

Sólveig er forseti sjúklingasamtakanna ECPO. Hér fer hún yfir það hvernig það var að alast upp og upplifa það að passa ekki í normið þegar kom að stærð. Offitan sem síðar þróaðist út í sjúkdóminn offitu, áhrif áfalla og hvernig það var að leita sér aðstoðar innan heilbrigðiskerfisins. Hvernig hún náði að þróa með sér eðlilegt samband við mat. Markmið Sólveigar er að vinna að bættari heim fyrir alla þá sem lifa með offitu, rödd sjúklinga verður að heyrast og þeir verða að fá að taka þátt í þeim breytingum sem eiga sér stað innan heilbrigðiskerfisins.

Að breyta um lífsstíl er sennilega það besta sem ég hef gert fyrir sjálfa mig um ævina.

Ætli ég hafi ekki bjargað lífi mínu.

Þetta er stórt skref sem maður tekur.
Þetta hljómar bæði fallega og rétt ekki satt?
En hvað þýðir þetta?
Í mínu tilviki voru það nokkrir krónískir sjúkdómar sem voru búnir að veikja kerfið mitt það mikið að ég var orðin alvarlega veik og daglegt líf var orðið mjög erfitt.
Ég hef lifað með offitu nánast allt mitt líf.
Frá því ég er mjög ung byrja ég að finna fyrir því að passa ekki alveg í normið með stærð.
Og man þá sérstaklega eftir skólaárunum er kom að vigtunum. Kvíðinn sem því fylgdi var mér erfiður. Að standa í röð með skólafélögum sem pössuðu betur inn í allar kúrfur og gerðu grín að mínum handskrifaða miða frá hjúkkunni sem sýndi allt aðrar tölur en hin börnin fengu. Þennan miða fór ég svo með heim og mamma greyið þurfti að finna útúr þessu öllu.
Afhverju þyngdist barnið svona hratt og hvað var hægt að gera til að létta barnið.
Það voru mismunandi aðferðir notaðar á mig sem barn til að léttast. Mikið reynt að fylgjast með fæðunni og skammtastærðum. Ég var sett í megrun mjög ung. Kerfið mitt virkaði ekki rétt. Var skráð í megrunarklúbba og man þá sérstaklega eftir Línunni sem vigtaði börn, unglinga og fullorðna alla saman einu sinni í viku. Klappað fyrir þeim sem léttust en púað á hina sem þyngdust.
Mikil streita sem þessu fylgdi.
En á þessu tímabili vissi enginn af leyndarmáli sem ég geymdi og opnaði ekki á fyrr en ég var orðin fullorðin.
Ég var barn sem var kynferðislega misnotað af manni sem tengdist inn í fjölskylduna.
Þetta er að mínu mati ein af orsökum þess að ég byrja að þyngjast og það þróast síðar meir út í offitu.
Ég fór að nota mat til að deyfa tilfinningar og man ég sérstaklega eftir mér lítilli stúlku út í hrauninu í Hafnarfirði að misnota mat og sælgæti til að deyfa mig og reyna að finna minna til í sálinni. Borða þangað til ég kom ekki meira niður og sitja dofin og vona að hlutirnir myndu breytast. Þess á milli var ég í mjög ströngum kúrum sem oft skiluðu miklu þyngdartapi.
En líkaminn vildi ekki svona aðferðir og mín offita þróast út í sjúkdóminn offitu.
Það var ekki fyrr en ég þá orðin fullorðin kona og búin að reyna nánast allt til að léttast og komast í þessa svokölluðu draumatölu á vigtinni að ég fæ loksins faglega hjálp.
Þar á undan var ég búin að reyna að sækja hjálp vegna ofþyngdar í heilbrigðiskerfinu en þar fann ég ekki hjálpina og margt af því var mér hreinlega skaðlegt.
Ráðleggingar eins og „borðaðu minna og hreyfðu þig meira“ þetta eru ekki góð ráð og oft á tíðum geta leitt til þess að manneskja hættir að leita sér hjálpar innan kerfis.

Ég komst að hjá Heilsuborg á sínum tíma og þar voru læknar, sjúkraþjálfarar, hjúkrunarfræðingar, næringarfræðingar, sálfræðingar, íþróttafræðingar og margir aðrir og þar fékk ég loksins þá hjálp sem ég þurfti.
Ég fékk þá fræðslu og stuðning sem ég þurfti.
Þar fékk ég loksins útskýringar og öðlaðist skilning á minni offitu.

Offita getur þróast yfir í sjúkdóminn offitu. Þetta kemur sumum á óvart og öðrum léttir, sérstaklega þeim sem lifa með offitu. En hvers vegna er offita sjúkdómur en ekki einfaldlega skortur á viljastyrk eða spurning um lífsstíl? Hluti af svarinu liggur í þeirri staðreynd að offita er meira en það sem sést á yfirborðinu. Svo miklu meira. Útlit og aukakíló segja ekki til um hvort sjúkdómurinn sé til staðar. 


Og meðferð sem fólki með offitu er veitt geta ekki verið bara skyndilausnir.
Að léttast og viðhalda þyngdartapi, þar þarf fólk með offitu stuðning og oft aðkomu heilbrigðiskerfis. Þess vegna er mikilvægt að þekking innan kerfis sé góð. Að fólk geti leitað sér þjónustu innan heilbrigðiskerfis burtséð frá því á hvaða stigi offitan er. Því sjúkdómurinn offita er krónískur langvarandi sjúkdómur sem þarfnast oft á tíðum meðhöndlunar út lífið eins og með marga aðra króníska sjúkdóma.

Ég greindist með MS-sjúkdóminn þegar að ég var 35 ára og hef lifað með þeim króníska sjúkdómi ásamt vefjagigt og rósrauða og verið mismikill sjúklingur í gegnum árin. Stundum bara ansi hress og þá sérstaklega eftir að ég var greind með sjúkdóminn offitu og gat breytt svo mörgu með minn lífsstíl. Í grunninn þurfti líkaminn bara hjálp og skilning. Og með aðkomu Heilsuborgar sem í dag er því miður ekki starfandi fékk ég loksins þá hjálp sem ég þurfti með mína langvarandi sjúkdóma.
Ég var komin í lyfjahring og dagarnir voru mér oft ansi erfiðir áður en ég fékk hjálp.

Og eftir að hafa verið hjá þessu frábæra teymi innan Heilsuborgar náði ég að hætta á þeim lyfjum sem ég hafði verið á í mörg ár.
Ég var á lyfjum vegna MS og rósrauða á sínum tíma. Gekk fyrir verkjalyfjum og þurfti lyf til að ná að vaka fyrir MS þreytu og svefnlyf til að ná að sofa.
Með breyttum lífsstíl og faglegri hjálp gat ég hægt og rólega með mínum fagaðilum náð að losa mig undan mínum lyfjum. Og í dag tek ég bara inn D-vítamín og lýsi.
En ég veit að þetta getur allt tekið sig upp aftur og ég þurft aftur hjálp með lyfjum.
Því mínir sjúkdómar eru krónískir og það að breyta um lífsstíl er ekki lækning.
Ég fékk ekki bara greiningu á minni offitu innan Heilsuborgar heldur náði ég að breyta nánast öllu í mínu daglega lífi með hjálp fagaðila. Ég öðlaðist nýja sýn á heilbrigði og hvað heilsan er stórt atriði í þessu öllu. Að talan á vigtinni segir ekki alla söguna. Að stærri líkami getur líka verið hraustur og tekið þátt í heilbrigðu lífi. Að svefninn er stór þáttur í að viðhalda góðri heilsu. Að hreyfingin þarf að vera með í daglegu lífi og getur verið skemmtileg. Að hreyfa sig og stunda líkamsrækt þarf ekki að vera kvöð heldur til að styrkjast og andlega hliðin getur haft svo mikil áhrif á alla heildarmyndina.
Gott mataræði og að borða reglulega er eitthvað sem ég þurfti að læra alveg upp á nýtt.
Ég hafði átt í slæmu sambandi við matinn minn í svo mörg ár.
Notaði fæðu til að deyfa mig og líka til að gleðjast yfir einhverju eða jafnvel hefna mín á sjálfri mér fyrir allskonar sem miður fór í lífinu.
Ég var barn megrunar, boð og bönn allsráðandi.
Matur flokkaður niður í góðan og slæman.
Ég lærði hægt og rólega að þetta gat ekki gengið til frambúðar. Og það að læra að njóta matar þótti mér ansi skrýtið í byrjun. Að kyngja niður mat án sektarkenndar og vanlíðunar. Og ég tók þetta lengra og ákvað að ég ætti alltaf  það besta skilið og fór að vanda mig aðeins meira en ég hafði áður gert með fæðuna mína og hvernig ég býð sjálfri mér upp á fallegan mat sem nærir og gleður.

Að hafa matardiskana mína fallega og fjölbreytta. Ég býð sjálfri mér og minni fjölskyldu í dag upp á góða og fjölbreytta fæðu og við öll njótum þess að borða saman.

"Í dag býður Sólveig sér upp á mat sem nærir og gleður. Hún leggur mikla áherslu á að hafa matardiskana fallega og fjölbreytta"

Að eiga gott samband við fæðuna sína er að mínu mati svo mikil nauðsyn til að ná að lifa í sátt.
Í dag eru komin ansi mörg ár síðan að ég fékk  þessa faglegu hjálp innan Heilsuborgar.
Og starfsmenn Heilsuborgar komnir til starfa útum allt í heilbrigðiskerfinu og sífellt fleiri heilbrigðisstarfsmenn bætast í hóp þeirra upplýstu er kemur að offitunni. Og eru að öðlast meiri færni í hvernig hægt er að hjálpa fólki sem glímir við offitu.  En betur má ef duga skal og við þurfum að efla fræðslu innan kerfis til muna.
Það er brýn nauðsyn að mínu mati að þjónusta eins og stóð til boða innan Heilsuborgar fái gott svigrúm innan Heilsugæslunnar.
Þar ættu þeirra skjólstæðingar að geta fengið viðeigandi hjálp án fordóma.
Og að á skjólstæðinginn sé hlustað og viðeigandi hjálp sé til fyrir hvern og einn.
Ekkert eitt virkar á alla og þarf einstaklingsmeðferð að vera líka til staðar.
Minn draumur í dag sem sitjandi forseti ECPO (European Coalition for People living with Obesity) er að heilbrigðiskerfið hérna á Íslandi sem og um alla Evrópu eflist hratt þegar kemur að úrræðum fyrir fólk með offitu og sjúkdóminn offitu. Við þurfum sterkara og upplýstara kerfi.
Fordómar innan heilbrigðiskerfis eru miklir og til mín berast ansi margar sögur sem eru hreinlega til skammar. En fordómar eru oft þessi vanþekking sem ég vil meina að sé ennþá til staðar innan kerfis og samfélagsins alls. Og ég bind miklar vonir við að hægt sé með aukinni fræðslu og þekkingu að ná þessum fordómum niður. Það að ætla að skamma manneskju í offitu til hlýðni með fordómum er skaðlegt og við verðum að vinna að þessu innan kerfis öll saman. Að á okkur sem lifum með offitunni sé hlustað og að líkamsvirðingin sé stór partur af allri sátt. Líkamsvirðingin er svo stór þáttur  og að ná að lifa með offitunni án þess að lifa við skömm. Við megum taka pláss sama í hvaða stærð við erum. Og kílóin utan á okkur segja ekkert um okkur sem manneskjur.
Mitt starf í dag með ECPO er ansi stór partur af mínu lífi. Og við vinnum hörðum höndum að því um alla Evrópu að bæta heim fólks í offitu og aðstandenda þeirra.
Hef haldið fyrirlestra innan Evrópuþings, setið hringborðsumræður á vegum Sameinuðu þjóðanna, komið að ráðgjafaverkefnum um alla Evrópu og núna nýlega skipuð í starfshóp hjá Heilbrigðisráðuneytinu hér heima um offitu, holdafar, heilsu og líðan.
Mitt takmark er að vinna að bættari heim fyrir okkur sem lifum með offitu. Við sem lifum með offitu verðum að eiga rödd innan kerfis og við verðum að fá að taka þátt í þeim breytingum sem eiga að verða. Og núna nýlega kom ég, ásamt ECPO, að stofnun alþjóðasamtaka fólks í offitu sem heita GOPA (Global Obesity Patient Alliance).
Þannig að heimurinn er að sameinast og það er verið að kalla eftir breyttum heimi fyrir fólk sem lifir með offitu. Tíminn mun svo leiða í ljós hvort við náum ekki að breyta þessum heimi offitunnar fyrir næstu kynslóðir. Ekkert barn ætti að alast upp við þær aðstæður sem ég ólst upp við og mun ég halda áfram að berjast fyrir bættari heim okkar allra.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemi sjúklingasamtakanna frekar geta farið inn á https://eurobesity.org/

Tengdar greinar

Offita: Sjúkdómur sem á sér margar orsakir
Offita | 3 Lágm. lestur

Offita: Sjúkdómur sem á sér margar orsakir

Rannsóknir hafa sýnt að orsakir offitu eru margar. Þættir sem einstaklingur með offitu er ekki endilega meðvitaður um – eða sem viðkomandi hefur ekki stjórn á.

Carina Jørgensen: „Sálrænar orsakir ofþyngdar eru sá þáttur sem fólki yfirsést“
Líf með offitu | 5 Lágm. lestur

Carina Jørgensen: „Sálrænar orsakir ofþyngdar eru sá þáttur sem fólki yfirsést“

Carina Jørgensen er 47 ára og er frá Odsherred á Sjálandi. Carina hefur menntun sem skrifstofumaður og læknaritari, á þrjár dætur og kærasta og er virk í landssamtökunum um ofþyngd. Carina barðist í mörg ár við sálrænar áskoranir, átröskun og ofþyngd, þangað til hún fékk þá hjálp sem hún hafði þörf fyrir.